Innlent

Árni fór á fund Samfylkingarinnar

Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Mynd/Anton Brink
Árni Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, mætti á fund þingflokks Samfylkingarinnar á miðvikudag og útskýrði afstöðu sína til kæruefna í þingsályktunartillögum um að hann og fleiri yrðu ákærðir fyrir landsdómi.

Árna var boðið til fundar líkt og hinum fyrrverandi ráðherrunum þremur sem meirihluti þingmannanefndar telur hafa gerst brotlega við lög um ráðherraábyrgð og fleira. Áður hafði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, þegið sambærilegt boð þingflokks Samfylkingarinnar en Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, afþakkað.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður þingflokksins, segir fundinn hafa verið haldinn degi eftir að Árni hafi þekkst boðið. Sjálf hafði hún ekki tök á að sitja fundinn.

Aðrir þingflokkar hafa ekki boðið fjórmenningunum til fundar.

Allsherjarnefnd Alþingis framheldur í dag umfjöllun um ákærutillögurnar en miðað er við að hún skili áliti síðdegis. Nefndin fékk nokkra lagasérfræðinga á sinn fund í gær og verður framhald á þeim heimsóknum í dag.

Stefnt er að því að þingmannanefndin ljúki meðferð sinni á málinu í kvöld eða á morgun og að síðari umræða geti hafist á mánudag.

Samhliða ákærutillögunum hefur þingmannanefndin breytingatillögur við skýrslu sína til meðferðar. Um tugur breytingatillagna var lagður fram og fór nefndin í gær yfir hvort efni og ástæður væru til að taka tillit til þeirra. Sú vinna heldur áfram í dag.

Samkvæmt starfsáætlun þingsins fyrir árið átti þingstörfunum nú í september að vera lokið fyrir tveimur vikum. Nýtt þing verður sett eftir viku, fyrsta dag októbermánaðar, líkt og mælt er fyrir í stjórnarskrá. - bþs

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×