Innlent

Svipaður fjöldi klamydíutilfella í ár og í fyrra

Margir einkennalausir Klamydía er kynsjúkdómur sem helst kemur upp hjá yngra fólki. Nordic photos/Getty
Margir einkennalausir Klamydía er kynsjúkdómur sem helst kemur upp hjá yngra fólki. Nordic photos/Getty
Aukinn fjöldi greindra klamydíutilfella árið 2009 skýrist af nýrri aðferð til greininga sem tekin var í notkun á sýklafræðideild Landspítalans. „Samkvæmt niðurstöðum rannsókna er nýja aðferðin næmari en aðferðin sem var áður notuð,“ segir í nýútkomnum Farsóttafréttum Landlæknisembættisins.

„Allt bendir því til að aukning greindra klamydíutilfella á síðastliðnu ári stafi af bættum greiningaraðferðum en ekki sé um að ræða raunverulega aukningu á klamydíusmiti í samfélaginu. Fjöldi greindra tilfella og hlutfall jákvæðra sýna í maímánuði á þessu ári er svipaður mánaðarlegum fjölda tilfella í maí á síðasta ári,“ segir í ritinu.

Fram kemur að klamydíusýking greinist oftar í konum en körlum og að konur séu að jafnaði yngri en karlar þegar þær smitast af klamydíu. „Sýkingin er algengust í konum á aldrinum 15 til 19 ára en flestir karlmenn sýkjast á aldrinum 20 til 24 ára. Klamydíusýkingar eru hins vegar afar fátíðar meðal karla og kvenna sem yngri eru en 15 ára og eldri en 40 ára.“

Helstu einkenni klamydíusýkingar eru sögð vera sviði við þvaglát og útferð, en stór hluti þeirra sem sýkjast sé einkennalaus. „Klamydíusýkingar geta valdið bólgu í eggjaleiðurum með fylgjandi ófrjósemi hjá konum. Bólgur í eistalyppum hjá körlum, sem geta valdið ófrjósemi, eru vel þekktar en eru sjaldséðari en fylgikvillar hjá konum.“ - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×