Innlent

Jóhanna segir lyklafrumvarp ekki geta verið afturvirkt

Ríkisstjórnin ræddi á fundi sínum í morgun um lausnir á skuldavanda heimilanna. Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengistryggð húsnæðis- og bílalán verður líklega tekið fyrir í ríkisstjórn á föstudaginn kemur.

Í morgun ræddi ríkisstjórnin einnig lyklafrumvarpið svokallaða sem Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, lagði fram á síðasta þingi. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði þetta um lyklafrumvarpið að loknum ríkisstjórnarfundi: „Það bendir allt til þess að það sé einungis hægt að láta það gilda inn í framtíðina, en ekki afturvirkt, vegna skaðabótaábyrgða."

Þá vinnur félagsmálaráðherra að því að kanna félagslegar lausnir fyrir fólk sem ekki getur staðið undir afborgunum af húsnæði sínu. Forsætisráðherra sagði í morgun að mikil áhersla verði lögð á að greiða fyrir og virkja þau úrræði sem eru fyrir hendi hjá umboðsmanni skuldara.

Þá kom einnig fram í máli forsætisráðherra að verið væri að skoða hvað hægt sé að gera fyrir verst settu heimilin. Verið sé að skoða 8-9 hugmyndir í tengslum við það. „Reiknimeistarar okkar eru að vinna í að klára sína útreikninga og það er gert ráð fyrir að það taki út þessa viku."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×