Íslenski boltinn

FH með samkomulag við Neestrup

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.
Heimir Guðjónsson, þjálfari FH. Mynd/Vilhelm

FH-ingar hafa gengið frá samkomulagi við danska miðvallarleikmanninn Jacob Neestrup um að spila með liðinu í sumar.

Þó er ekki búið að ganga frá félagaskiptum en Neestrup hélt í morgun til Noregs þar sem enn á eftir að ganga frá lausum endum gagnvart hans gamla félagi, Stavanger IF.

„Við erum með öll okkar mál á hreinu en hann á inni laun hjá þessu félagi og á því eftir að fá niðurstöðu í sín mál," sagði Lúðvík Arnarson hjá FH.

Neestrup var með ákvæði í samningi sínum við félagið um að hann gæti farið frítt frá félaginu sem hann svo nýtti sér. Torger Motland, sem samdi við FH fyrr í vetur, kom einnig frá sama félagi af sömu ástæðu.

„Hann vill koma og ég vil fá hann," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH við Vísi. „Hann hefur litið vel út á æfingum og er góður leikmaður. Vonandi kemur hann til með að styrkja okkar lið."

„Það er vissulega engin óskastaða fyrir þjálfara að fá nýjan leikmann inn á þessum tímapunkti en ég vona að hann verði fljótur að aðlagast liðinu."

Neestrup verður ekki með FH gegn Val í opnunarleik Pepsi-deildarinnar á mánudag en vonast er til að hann verði kominn með leikheimild eftir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×