Innlent

Nágrannavarslan kom upp um innbrot og fíkniefnamisferli

Lögreglan komst á sporið vegna lýsingar nágrannans á dularfullum bíl.
Lögreglan komst á sporið vegna lýsingar nágrannans á dularfullum bíl.

Síðasta mánudag var brotist inn í íbúðarhús í Hveragerði og þaðan stolið fartölvum, sjónvarpsflakkara, myndavél og fleiri hlutum.

Einu vísbendingar lögreglunnar á Selfossi voru upplýsingar nágranna sem gat lýst bifreið sem var fyrir utan húsið á sama tíma.

Á miðvikudag komust lögreglumenn á Selfossi á slóð bifreiðarinnar í Reykjavík. Með aðstoð lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu voru þrír menn svo handteknir og fluttir í fangageymsluna á Selfossi.

Við yfirheyrslur játuðu mennirnir að hafa brotist inn í íbúðarhúsið í Hveragerði. Þýfið notuðu þeir til þess að greiða fíkniefnaskuld.

Við húsleit hjá manninum sem fékk þýfið í sínar hendur fundust 126 tilbúnir fíkniefnaskammtar í söluumbúðum af þurrkuðu kannabisefni.

Maðurinn viðurkenndi að hafa ætlað að selja efnin. Það var því árvekni nágrannans sem varð til þess að glæpurinn var upplýstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×