Innlent

Gnarr um Burns: Meira hjarta minna kjaftæði

Erla Hlynsdóttir skrifar

Jón Gnarr borgarstjóri sendi hvatningarorð til bandaríska borgarfulltrúans Joel Burns sem hélt tilfinningaþrungna ræðu um öldu sjálfsmorða samkynhneigðra pilta. Ræðuna hélt Burns á borgarstjórarfundi í heimabæ sínum, Fort Worth í Texas, fyrr í þessum mánuði og vakt heimsathygli.

Á Twitter-síðu sinni gerir Burns kveðjuna frá Jóni að umtalsefni: „Fékk virkilega fallega orðsendingu frá borgarstjóra Reykjavíkur, Jóni Gnarr, eftir frétt á Stöð 2," segir Burns.

Hann spyr einnig hvort lesendur sínir skilji íslensku og setur inn tengil á frétt Stöðvar 2 frá því á laugardagskvöldið þar sem fjallað er um ræðuna hans og viðbrögð við henni. Hægt er að horfa á fréttina með því að smella á sjónvarpstengilinn hér að ofan.

Tekur að ofan fyrir Burns

Jón nýtti sér einnig tæknina til að koma skoðun sinni á ræðu Burns til borgarbúa því Jón setti inn tengil ræðuna á Facebook-síðu sinni. Þar sagði hann einnig:

„Falleg orð frá hugrökkum borgarfulltrúa. Í öllu þessu einelti, reiði, meðvirkni neikvæðni og kjaftæði er svona fólk að þora að vera einlægt. Tek ofan og hneigi mig djúpt. Meira hjarta minna kjaftæði!"

Hafsteinn Hauksson fréttamaður tók ítarlegt útvarpsviðtal við Burns á laugardag um rússíbanann sem hófst eftir að hann flutti ræðuna, umburðarlyndið á Íslandi og hvort Bandaríkin séu búin undir samkynhneigðan forseta.

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni með því að smella hér á Visir.is














Fleiri fréttir

Sjá meira


×