Innlent

Bretar vilja fund

Bresk stjórnvöld hafa óskað eftir frekari fundum með samninganefnd Íslands í Icesave málinu. Bretar vilja leysa málið sem fyrst til að hægt verði að aflýsa fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Upp úr slitnaði í viðræðum íslensku samninganefndarinnar við Breta og Hollendinga á fimmtudag. Nefndin ætlaði að halda heim á leið í gær en þá opnuðu Bretar á nýjar viðræður um málið. Ákveðið var að hluti nefndarinnar yrði áfram úti þar á meðal Lee Buchheit. Guðmundur Árnason og Lárus Blöndal sem einnig eiga sæti í nefndinni komu heim í gær en fóru aftur Bretlands í morgun.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst fundaði nefndin með Bretum í dag og er búist við áframhaldandi fundarhöldum um helgina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu leggja Bretar gríðarlega áherslu á að leysa málið áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave fer fram. Hátt settir embættismenn innan bresku stjórnsýslunnar og ráðherrar hafa lýst sig reiðubúna að leggja sitt á vogarskálarnar til að flýta fyrir afgreiðslu málsins.

Það sem Bretar og aðrar þjóðir óttast er það fordæmi sem þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave kann að setja. Það að almenningur fái að kjósa um skuldbindingar af þessu tagi getur haft víðtækar afleiðingar og orðið til þess að aðrar skuldugar þjóðir fylgi í fótspor Íslendinga.

Fulltrúar Hollendinga sátu ekki fundinn í dag samkvæmt heimildum fréttastofu. Í Hollandi situr nú starfsstjórn og almennt er litið svo á að sú stjórn hafi lítið sem ekkert umboð til að semja í málinu.

Ef Íslendingar og Bretar komast að samkomulagi þykir hins vegar líklegt að Hollendingar fallist á þá niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×