Erlent

Telja sig hafa fundið hringborð Artúrs konungs

Óli Tynes skrifar
Fornt málverk af hringborðinu. Vísindamennirnir telja að ekki hafi verið um hefðbundið borð að ræða.
Fornt málverk af hringborðinu. Vísindamennirnir telja að ekki hafi verið um hefðbundið borð að ræða.

Breskir sagnfræðingar og fornleifafræðingar telja sig hafa fundið staðinn þar sem riddarar Artúrs konungs söfnuðust saman í kringum hringborðið fræga.

Breska blaðið Daily Telegraph segir að vísindamennirnir telji sig hafa fundið borgarvirkið Camelot.

Það hefur raunar verið mikið umdeilt hvort Camelot hafi yfirleitt verið til eða aðeins verið hluti af goðsögninni um Artúr.

Vísindamennirnir telja nú að Camelot hafi ekki verið reist sérstaklega fyrir Artúr heldur að hann hafi flutt inn í borgarvirki sem Rómverjar skildu eftir sig.

Þeir hafa fundið leifarnar af rómversku hringleikahúsi í Chester, sem er rétt við Wales. Í hringleikahúsinu er að finna aftökustein og það hefur einnig fundið minnismerki úr tré um kristna píslarvotta.

Þetta minnismerki kemur fyrir í skráðum heimildum frá árinu 500. Það frásögn munks nokkurs sem lýsir lífi konungsins og talar um City of Legions þar sem Artúr háði aðra stórorrustu sína.

Samkvæmt sögunni söfnuðust riddarar Artúrs þá saman við hringborðið til þess að hlýða á hernaðaráætlun hans.

Það fer tvennum sögum af því hversu margir riddarar komust að við hringborðið. Vísindamennirnir eru þeirrar skoðunar að ekki hafi verið um hefðbundið borð að ræða.

Þess í stað hafi það verið risastórt mannvirki úr tré og steini þar sem hafi verið pláss fyrir yfir eittþúsund manns.

Þar hafi hinir hæst settu setið í framstu röð á þessum hringlaga fundarstað og undirsátar þeirra á steinbekkjum fyrir aftan þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×