Innlent

Hávaði frá götusóp yfir leyfilegum hávaðamörkum

Hávaði frá götusóp sem notaður hefur verið í miðborg Reykjavíkur er yfir leyfilegum hávaðamörkum. Borgin lét framkvæma hávaðamælingu á tveimur sópum vegna kvartana frá íbúum og hefur notkun sópsins nú verið hætt.

Reykjavíkurborg bárust kvartanir frá íbúum í miðbæ Reykjavíkur vegna götusóps sem notaður er í bænum að nóttu til. Í kjölfarið lét borgin verkfræðistofuna Mannvit, framkvæma hávaðamælingu á sópnum.

Þann 17. desember síðast liðinn var hávaði frá umræddum sóp sem er frá Íslenska gámafélaginu borinn saman við hávaða frá sóp frá Hreinsitækni. Í grófum dráttum er niðurstaðan sú að hávaði frá sóp íslenska gámafélagsins mældist 53 desibil en hávaði má ekki fara yfir 45 desibil að nóttu til í íbúðarhúsnæði.

Sóparnir eru aðallega notaðir til þess að hreinsa upp svifryk sem er gjarnan mikið í kringum fjölfarnar umferðargötur.

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Halldóri Jónassyni upplýsingafulltrúa framkvæmdarsviðs borgarinnar hefur notkun sópsins verið hætt í miðborginni, en hann er þó enn notaður fjarri íbúabyggð.

Ekki hefur verið ákveðið hvort eða hvenær önnur hávaðamæling verði gerð, en þangað til mun háværi sópurinn halda sig í hæfilegri fjarlægð frá póstnúmeri 101.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×