Innlent

Vill viðhalda íslömskum einkennum

Bænastund Múslimar á Íslandi eru nú yfir sex hundruð talsins. Þeir hafa í ellefu ár sóst eftir að fá lóð undir mosku í Reykjavík en ekki fengið. Á meðan hafa þeir aðstöðu í Ármúlanum.
Fréttablaðið/Vilhelm
Bænastund Múslimar á Íslandi eru nú yfir sex hundruð talsins. Þeir hafa í ellefu ár sóst eftir að fá lóð undir mosku í Reykjavík en ekki fengið. Á meðan hafa þeir aðstöðu í Ármúlanum. Fréttablaðið/Vilhelm

Sulaiman Abdullah Alshiddi í Sádi Arabíu og Hussein Al Daoudi í Svíþjóð hafa sett á laggirnar sjálfseignarstofnunina The Islamic Endowment in Iceland.

„Tilgangur félagsins er að stuðla að því að viðhalda íslömskum einkennum úr samfélagi múslima. Að auka mikilvægi og verja íslömsk einkenni múslimskra barna,“ segir meðal annars um tilgang nýju stofnunarinnar í bókum hlutafélagaskrár.

Enn fremur segir að ætlunin sé sú að hvetja múslima á Íslandi til að læra íslensku og aðstoða þá við að læra arabísku sem sé sameiginlegt tungumál múslima hérlendis.

Þá segir að tilgangur stofnunarinnar sé „að kynna fyrir múslimum á Íslandi lög og samfélagsvenjur Íslands“ og að kynna fyrir þeim réttindi og skyldur einstaklings í íslensku þjóðfélagi. Þá eigi að kynna samfélag múslima fyrir Íslendingum og vera „þátttakandi í staðbundnum tómstundaiðkunum fyrir börn og unglinga sem eru undir handleiðslu þar til bærra yfirvalda.“

Salmann Tamimi, formaður Félags múslima á Íslandi, segist ekki hafa heyrt af stofnun hins nýja félags hér á landi og að forsvarsmenn þess hafi ekki verið í sambandi við Félag múslima á Íslandi. Salmann segir The Islamic Endowment vera með höfuðstöðvar í Örebro í Svíþjóð og stunda þar góðgerðar- og fræðslustarfsemi. Sulaiman Abdullah Alshiddi tilheyri yfirstéttinni í Sádi Arabíu og sé sterkefnaður. „Vonandi getur þetta nýja félag hjálpað til við byggingu mosku fyrir múslima á Íslandi,“ segir Salmann. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×