Lífið

Jeff Who? auglýsir vodka í Bandaríkjunum

við tökur Jeff Who? voru í tökum fyrir vodkaframleiðandann Reyka í stúdíói Latabæjar í gær.fréttablaðið/anton
við tökur Jeff Who? voru í tökum fyrir vodkaframleiðandann Reyka í stúdíói Latabæjar í gær.fréttablaðið/anton

„Við getum alveg verið vodkamenn, ef það hittir þannig á,“ segir Elís Pétursson, yfirleitt þekktur sem Elli, bassaleikari hljómsveitarinnar Jeff Who? Hann er þó fljótur að bæta við skýrum skilaboðum: „En við erum reglumenn, maður þarf að kunna að fara með svona hluti.“

Jeff Who? tekur þátt í markaðssetningu Reyka vodka í Bandaríkjunum þegar ný herferð fer í gang í apríl. Hljómsveitin tók upp lög í myndveri Latabæjar í gær og myndbandið verður notað í herferðinni, sem fer hvorki í sjónvarp né á Netið. Í staðinn ferðast myndbandið milli valdra borga í Bandaríkjunum og verður spilað á skemmti- og veitingastöðum. Í bakgrunni verða valdar myndir frá íslensku mannlífi og náttúru, en ljósmyndarinn Ari Magg var fenginn til verksins.

Elli segir samstarfið við vodka­framleiðandann vera krúttlegt, enda njóti báðir aðilar góðs af. Hann veit þó ekki hvort meðlimir hljómsveitarinnar verði ríkir af samstarfinu, þó að hann voni það. „Maður segir ekki nei við peningum í þessu ástandi,“ segir hann í léttum dúr. Spurður hvort það sé töff fyrir hljómsveit að auglýsa vodka, segir Elli að Reyka sé svokallaður gæðavodki.

„Þá er það mjög töff – svolítið klassí,“ segir hann og hlær. „Við segjum ekki já við hvaða vöru sem er – við myndum ekki auglýsa tómatsósu, eða eitthvað.“

- afb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×