Innlent

Dularfull hetja bjargaði manni úr alelda bíl

„Hann var stórkostlegur," segir Guðmundur um leigubílstjórann. Myndin er úr safni.
„Hann var stórkostlegur," segir Guðmundur um leigubílstjórann. Myndin er úr safni. Mynd/E.Ól.
„Hann óð bara inn í bílinn sem var orðinn alelda og dró manninn út," segir Guðmundur Sigtryggson sem varð vitni af því þegar leigubílstjóri aðstoðaði eldri mann út úr logandi bíl á Reykjanesbraut í dag.

Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning um eld í fólksbifreið milli Kúgagerðis og álversins í Straumsvík á fjórða tímanum í dag. Slökkviliðsmenn eru enn á vettvangi, að sögn varðstjóra. Ekki lítur út fyrir að eldri manninum hafi orðið meint af.

Guðmundur ber mikið lof á framgöngu bílstjórans og segir að hann hafi stöðvað leigubílinn út á miðri götu, snarað sér út bílnum og komið manninum til bjargar. Af því loknu hafi hann haldið ferð sinni áfram. „Það voru aðrir sem aðstoðuðu svo manninn því leigubílstjórinn var með fólk í bílnum hjá sér og þurfti að halda áfram," segir Guðmundur. Leigubílnum var ekið í átt að Reykjanesbæ.

„Hann var stórkostlegur," segir Guðmundur en fátt er vitað um leigubílstjórann. Frekari upplýsingar um atvikið fengust hvorki hjá lögreglu eða slökkviliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×