Innlent

Telur ákvörðun sína styrkja stöðu Íslands

Á Bessastöðum í gær. Ólafur Ragnar boðaði til sín fjölmiðlafólk til að gefa þeim kost á að ræða um ákvörðun hans um að synja Icesave-lögunum staðfestingar á þriðjudag.fréttablaðið/vilhelm
Á Bessastöðum í gær. Ólafur Ragnar boðaði til sín fjölmiðlafólk til að gefa þeim kost á að ræða um ákvörðun hans um að synja Icesave-lögunum staðfestingar á þriðjudag.fréttablaðið/vilhelm

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, telur áhrif ákvörðunar hans um að synja Icesave-lögunum staðfestingar hafa verið minni en hann átti von á. Bæði ætti það við um viðbrögð stjórnvalda í Bretlandi og Hollandi og fjármálaheimsins. Hann segir ákvörðunina þá erfiðustu sem hann hefur tekið en hún hefur að hans mati styrkt stöðu Íslands í deilunni.

Ólafur segist hafa orðið var við mikinn skilning á málstað Íslendinga erlendis frá síðustu daga og þar hafi jafnframt komið fram stuðningur við ákvörðun hans. Vitnaði hann þar sérstaklega í leiðara Financial Times.

„Þær hrakspár sem komu fram hafa ekki reynst réttar enn sem komið er," sagði Ólafur um þær efnahagslegu afleiðingar sem ríkisstjórnin, verkalýðshreyfingin, atvinnulífið og fjölmargir sérfræðingar töldu að synjun laganna gæti haft í för með sér. Sagði hann þau ítarlegu gögn sem honum bárust hafa verið „vangaveltur um hvað myndi gerast færi allt á versta veg" sem hann hefði ekki getað látið hafa úrslitaáhrif á ákvörðun sína. Um efnahagslegar afleiðingar sagði Ólafur jafnframt að markaðurinn myndi aldrei vega þyngra við ákvörðunartöku hans heldur en lýðræðið sjálft.

Í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni um að synja lögunum vísaði Ólafur í áskoranir þingmanna þegar hann sagðist telja að meirihluti væri fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Um þessi ummæli vildi forsetinn ekki fjalla sérstaklega en eins og kunnugt er var tillaga um að málið yrði sett í þjóðaratkvæði felld á Alþingi nokkrum dögum fyrr. Sagði hann þetta aukaatriði þrátt fyrir að forsvarsmenn stjórnarandstöðunnar lýsi því nú yfir að þjóðaratkvæðagreiðsla sé þeim ekki efst í huga við lausn málsins. Ólafur segist ekki hafa verið blekktur; mestu hafi skipt allur sá fjöldi fólks sem hafði komið á framfæri ósk sinni um að hann synjaði lögunum sem hafi ráðið mestu um ákvörðun hans.

Úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar telur Ólafur ekki hafa nein áhrif á stöðu hans sem forseta eða á það hvort ríkisstjórnin situr áfram verði þau felld.

Ólafur viðurkenndi að æskilegra hefði verið að ákvörðun hans hefði verið kunn ríkisstjórninni áður en hún var kynnt almenningi. Baðst hann forláts á því en hann hefði ekki viljað kynna forystumönnum ríkisstjórnarinnar ákvörðun sína símleiðis, heldur að þau gætu kynnt sér rökstuðning hans í heild.svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×