Innlent

Breskum þingmönnum ráðið frá Íslandsför

Þingmönnum sem sitja í Skotlandsmálanefnd breska þingsins hefur verið ráðið frá því að heimsækja Ísland en nefndin rannsakar nú orsakir efnahagskreppunnar. Í dagblaðinu the Scotsman er sagt frá því að það hafi verið breski sendiherrann hér á landi sem hafi komið þeim skilaboðum til nefndarmanna að þeir ættu að fresta för sinni hingað þar til fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla í Icesavemálinu væri afstaðin.

Einn nefndarmanna, fulltrúi skoskra þjóðernissinna, segir að sendiherrann hafi sagt pólitískan óstöðugleika ríkja á Íslandi en utanríkisráðuneytið breska þvertekur fyrir að skilaboðin hafi verið á þá leið og undir það tekur formaður nefndarinnar. Hann segir að einungis hafi verið um tillitssemi við atkvæðagreiðsluna að ræða.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×