Innlent

Brák bar lítilli kvígu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Litla kvigan sem var borin í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í gær.
Litla kvigan sem var borin í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í gær.
Kýrin Brák bar í gærmorgun myndarlegri rauðbröndóttri kvígu í Fjölskyldu og húsdýragarðinum í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum frá Unni Sigurþórsdóttur, deildarstjóra fræðsludeildar í garðinum, gekk burður vel og eftir að Brák hafði karað kvíguna var sú litla flutt í litla kálfastíu. Þar lætur hún nú fara vel um sig á mjúku og hlýju heyi.

Kvígan litla fékk broddmjólkina frá Brák, en það er fyrsta mjólkin sem kemur frá kúm eftir burð. Næstu daga fær kvígan svo reglulega mjólk í pela sem dýrahirðar garðsins sjá um að mjólka úr Brák með aðstoð mjaltakerfisins. Mjaltir eru tvisvar á dag í garðinum, fyrri mjaltir um klukkan 7 á morgnana og seinni mjaltir á opnunartíma klukkan hálffimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×