Innlent

Brennir gat á meltingarfærin

Sterkar sýrur og önnur ætandi efni valda bruna í meltingarvegi ef stíflueyðir er drukkinn. Afleiðingarnar geta meðal annars orðið þær að efnin brenna gat á vélinda eða annars staðar í meltingarveginn. Gerist það og viðkomandi lifir af, er mikil hætta á að hann geti ekki tekið inn næringu með eðlilegum hætti, heldur verði að nota sondu, en það er rör sem leitt er ofan í magann Þá geta myndast örvefir, ör og sár í meltingarvegi eftir brunann sem há sjúklingnum alla ævi.

Þetta segir Guðborg Auður Guðjóns­dóttir, forstöðumaður Eitrunarmiðstöðvar Landspítala.

Að undanförnu hafa komið upp þrjú tilfelli þar sem menn hafa drukkið stíflueyði. Hinn fyrsti lést af völdum hans. Annar lá þungt haldinn á gjörgæslu í rúma viku, en hefur nú verið útskrifaður yfir á almenna deild. Þriðja manninum er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæslu og er hann talinn í lífshættu.

Guðborg segir mjög mikilvægt að fólk komist sem allra fyrst undir læknishendur drekki það stíflueyði. „Ef einhver drekkur ertandi hreinsiefni, svo sem Ajax eða annað í þeim dúr getur verið gott að drekka glas af vatni eða mjólk til að þynna efnið út, hreinsa það af slímhúðinni og koma því sem fyrst ofan í magann," útskýrir hún.

„En ef er um ætandi efni að ræða gerir það ekkert gagn." Hún segir að auk brennslu í meltingarvegi geti stíflueyðirinn komist í lungu ef viðkomandi kastar upp og valdið þar miklum skaða. - jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×