Innlent

Stofnfjáreigendur í Húnaþingi spyrja um persónulegar ábyrgðir annarra

Kristján Már Unnarsson skrifar

Stofnfjáreigendur í Húnaþingi, sem bíða þess að gengið verði að eignum þeirra, leita svara við því hvort þeir sem keyptu bréf í nafni einkahlutafélaga, séu lausir undan persónulegum ábyrgðum. Meðal þeirra eru þrír starfsmenn Sparisjóðs Keflavíkur, allt fruminnherjar, sem skulda hátt í einn milljarð króna.

Um 140 einstaklingar við innanverðan Húnaflóa, að miklu leyti bændur, horfa fram á þungar búsifjar þegar þriggja milljarða króna skuldir verða innheimtar vegna kaupa þeirra á stofnfjárbréfum fyrir tveimur árum í tengslum við sameiningu Sparisjóðs Húnaþings og Stranda við Sparisjóð Keflavíkur.

Bréfin keypti fólkið undantekningalaust í eigin nafni og kröfuhafarnir, Landsbankinn og Sparisjóður Keflavíkur, líta svo á að það sé í persónulegum ábyrgðum. Fulltrúar Húnvetninga, sem sjá meðal annars fram á að missa íbúðarhús og bújarðir, hafa í viðræðum við bankana spurt hvort einnig verði gengið að persónulegum eignum þeirra einstaklinga sem keyptu stofnfjárbréf á sama tíma í nafni einkahlutafélaga, en fengið óljós svör.

Félagið Miðvörður ehf. er eitt dæmið en þrír starfsmenn sparisjóðsins í Keflavík, allt fruminnherjar, þeirra á meðal forstöðumaður fjármálasviðs, keyptu í nafni Miðvarðar stofnfjárbréf í Sparisjóði Keflavíkur og BYR fyrir um 400 milljónir króna, að mestu leyti fyrir erlent lán. Verðmæti bréfanna er hrunið en eftir situr risaskuld í félaginu, 925 milljónir króna, samkvæmt ársreikningi í fyrra.

Líklegt verður að telja að Miðvörður ehf. fari í gjaldþrot en Þröstur Leósson, sem skráður er framkvæmdastjóri Miðvarðar, vill ekki svara því hvort krafan tapast þar með og afskrifast eða hvort þeir eigendurnir séu í persónulegum ábyrgðum.

Hann vill heldur ekki upplýsa hver lánaði þeim peningana en tekur fram að það hafi ekki verið Sparisjóður Keflavíkur. Þremenningarnir eru enn allir starfandi í Sparisjóðnum.

Svo virðist sem það hafi verið regla fremur en undantekning að lán til kaupsýslumanna og lykilstarfsmanna í bönkum vegna verðbréfakaupa hafi verið veitt gegn veðum í bréfunum sjálfum án þess að krafist væri persónulegra ábyrgða.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.