Innlent

Víst vilja framsóknarmenn atkvæðagreiðslu

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins segir alrangt að hans flokkur hafi skipt um skoðun varðandi þjóðaratkvæðagreiðslu í Icesave-málinu. Jóhanna Sigurðardóttir hefur sagt undrandi á því sem hún kallar viðsnúning stjórnarandstöðunnar í málinu.

„Það er alrangt hvað okkur framsóknarmenn varðar," segir Höskuldur. „Ég get ekki talað fyrir aðra flokka en við höfum sagt að ákvörðunin sem tekin var 30. desember, að samþykkja breytingar á Icesave-lögunum eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og við það stöndum við hundrað prósent," segir hann.

„Við höfum hins vegar sagt að ef að Jóhanna er reiðubúin til þess að rétta fram sáttahönd og skipa þverpólitíska nefnd þá munum við taka í þá hönd." Engu að síður vilja framsóknarmenn að sögn Höskuldar að áfram verði unnið að skipulagningu á þjóðaratkvæðagreiðslu og hún haldin. „Núna er ekki tími fyrir klækjapólitík Samfylkingarinnar heldur tími samvinnu og sátta," segir hann ennfremur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×