Enski boltinn

Munum ekki greiða óeðlilega mikið fyrir Fabregas

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Cesc Fabregas.
Cesc Fabregas. Nordic Photos / Getty Images
Svo gæti farið að Barcelona hætti við að kaupa Cesc Fabregas frá Arsenal ef síðarnefnda félagið slakar ekki á kröfunum í viðræðum félaganna.

Barcelona hefur þegar lagt fram tilboð upp á 35 milljónir evra en því var umsvifalaust hafnað. Síðan þá hefur lítið gerst í málinu nema að Fabregas segir sjálfur nú mögulegt að hann spili áfram með Arsenal á næsta tímabili.

„Viðræðuferlið er enn í gangi og það mun halda áfram. En við ætlum ekki að ganga af göflunum," sagði Sandro Rosell, nýkjörinn forseti Barcelona í samtali við spænska fjölmiðla.

„Við munum ekki borga umfram það sem við teljum eðlilegt verð. Ef Arsenal vill tala við okkur munum við gera það en við munum aldrei greiða það sem okkur þykir ósanngjarnt verð."

Pep Guardiola, stjóri Barcelona, gat ekkert tjáð sig um málið.

„Þetta er mál sem kemur mér ekki við. Hann er leikmaður Arsenal og Arsene Wenger hefur ákvörðunarvaldið. Það verður að spyrja hann," sagði Guardiola.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×