Íslenski boltinn

Mögulegt að lið spili sjö leiki strax í maí

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar á síðasta sumri en Blikar mega eiga von á því að missa einhverja leikmenn í U-21 landsliðið í júní.
Úr leik Breiðabliks og Stjörnunnar á síðasta sumri en Blikar mega eiga von á því að missa einhverja leikmenn í U-21 landsliðið í júní. Fréttablaðið/Stefán

Nú liggja fyrir drög að niðurröðun leikja í Pepsi-deild karla næsta sumar. Þátttaka íslenska U-21 landsliðsins í EM í Danmörku næsta sumar hefur mikil áhrif en mótið fer fram dagana 11.-25. júní.

Gert er ráð fyrir því að mótið hefjist 1. maí en ljúki 1. október. Um talsvert lengra tímabil er að ræða en á síðasta sumri þegar tímabilið hófst 10. maí og lauk 25. september.

Samkvæmt þeim drögum sem liðin í Pepsi-deild karla fengu að sjá á dögunum er gert ráð fyrir fimm umferðum í maímánuði, rétt eins og í fyrra.

Hins vegar eiga 6. og 7. umferðin að fara fram á meðan EM í Danmörku stendur. Þau félög sem eiga leikmenn í U-21 landsliðinu geta fengið þeim leikjum flýtt fram í maí og myndu þá spila sjö deildarleiki í þeim mánuði auk þess sem gert er ráð fyrir því að 16-liða úrslit bikarkeppninnar fari fram 29.-30. maí.

Ef af því verður er ljóst að álagið á leikmenn verður mikið í maí, sem og á sjálfa vellina sem oft hafa verið viðkvæmir snemma vors.

Þó er enn verið að vinna að drögunum og verða lokatillögur lagðar fyrir formenn og framkvæmdastjóra félaganna á fundi um helgina. Heimildir Fréttablaðsins herma að til standi að spila heila umferð eftir landsleik Íslands og Danmerkur 4. júní og áður en EM í Danmörku hefst 11. júní. Það gæti mögulega létt á álaginu í maímánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×