Innlent

Auka þekkingu á vistkerfinu

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, Kristín Ingólfsdóttir rektor og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, undirrituðu samninginn. mynd/Hafró
Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, Kristín Ingólfsdóttir rektor og Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, undirrituðu samninginn. mynd/Hafró
Hafrannsóknastofnunin og Háskóli Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um haf- og fiskirannsóknir og stuðla þannig að aukinni þekkingu á vistkerfi hafsvæðisins umhverfis Ísland. Samningurinn tekur til kennslu í greinum sem tengjast haf- og fiskifræðum. Með því að auka samstarf sín á milli er stefnt að því að tryggja sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda sem byggi á eins góðri vísindalegri þekkingu og völ er á hverju sinni.

Stofnanirnar hafa um árabil átt í samstarfi um kennslu og rannsóknir en starfsmenn Hafrannsóknastofnunar hafa meðal annars sinnt kennslu við Háskólann og kennarar skólans hafa haft rannsóknaaðstöðu á Hafrannsóknastofnuninni. Þá hafa kennarar og nemendur haft aðgang að rannsóknaskipum stofnunarinnar vegna kennslu og eins í tengslum við gagnasöfnun vegna rannsókna.

Stofnanirnar eiga í margvíslegum samrekstri, til dæmis á rannsóknasetrum og á minni rannsóknastofum og hafa einnig sótt sameiginlega í erlenda rannsóknasjóði á síðustu árum. - shá



Fleiri fréttir

Sjá meira


×