Innlent

Enn hagrætt á leikskólasviði Reykjavíkurborgar

Erla Hlynsdóttir skrifar
Samkvæmt tillögu borgarstjóra verða framlög aukin til menningar- og ferðamálasviðs, til að mynda vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins.
Samkvæmt tillögu borgarstjóra verða framlög aukin til menningar- og ferðamálasviðs, til að mynda vegna tónlistar- og ráðstefnuhússins.

Enn verður hagrætt á leikskólasviði Reykjavíkurborgar samkvæmt tillögu Jóns Gnarr borgarstjóra um fjárhagsramma fyrir fagsvið Reykjavíkurborgar á næsta ári. Tillagan var lögð fram í borgarráði í dag.

Í tilkynningu frá Birni Blöndal, aðstoðarmanni borgarstjóra, segir að lögð sé áhersla á að verja þjónustu við börn og ungmenni eftir fremsta megni. Þannig verða framlög til leikskólasviðs hækkuð vegna fjölgunnar barna á leikskólasviði. Þó þarf sviðið að taka á sig hagræðingu.

Hann segir að við úthlutun ramma hafi verið lögð áhersla á það að verja velferðarsviði gegn hagræðingarkröfu vegna erfiðs ástands í þjóðfélaginu. Að auki var lögð áhersla á að verja þjónustu við börn og ungmenni eftir fremsta megni þó þeim málaflokki verði ekki með ekki með öllu hlíft. Til að mynda þýðir fjölgun barna á leikskólaaldri að hækka verður framlög til leikskólasviðs, en á móti þarf sviðið að taka á sig nokkra hagræðingu.

Framlag til Menningar og ferðamálsvið verður hins vegar aukið vegna samningsskuldbindinga, til að mynd við Tónlistar- og ráðstefnuhús, en á móti tekur sviðið á sig nokkra hagræðingu

Þetta er þriðja árið í röð þar sem lagður er fram fjárhagsrammi með hagræðingarkröfu. Halli á rekstri Reykjavíkurborgar er nú 4,5 milljarðar króna.

„Óumflýjanlegt er að breyta stjórnkerfi, sameina starfsstöðvar og nýta húsnæði á fjölbreyttari og hagkvæmari hátt en nú er gert. Með því má ná fram miklum langtímasparnaði, sem er til heilla fyrir alla borgarbúa," segir í tilkynningu frá Birni.

Heildarhagræðingarkrafa á fagsviðin er 1510 milljónir.

Björn vill árétta að gerður er ríkur fyrirvari við úthlutun fjárhagsramma. Því enn liggur ekki fyrir endanlega útfærsla á fjárlögum ríksins eða skattalögum sem mun koma til með að hafa mikil áhrif á stöðu tekna og gjalda hjá Reykjavíkurborg.

Skerðing á framlagi ríkisins til sveitarfélaga samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þýðir auknar byrðar á Reykjvíkurborg sem nemur 845 milljónum króna. Það er með öllu óásætanlegt að velta þessum vanda yfir á sveitarfélögin á þessum erfiðu tímum. Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar mun fara þess á leit við ríkisstjórnina að þessi áform verði endurskoðuð.

Á meðan ekki liggur fyrir hvort ríkisstjórnin endurskoðar afstöðu sína er óbrúað bil sem þarf að ná með auknum tekjum eða aukinni hagræðingu. Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar vonast til þess að ríkisstjórnin sjái að sér og komi til móts við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög með endurgreiðslu hækkunar tryggingagjalds og framlagi til húsaleigubótakerfisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×