Innlent

Gylfi: Algerlega siðlaust að skerða lífeyrissparnað fólks

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson segir ólögmætt og ósiðlegt að nýta lífeyrissparnaðinn til almennra lækkunnar skulda.
Gylfi Arnbjörnsson segir ólögmætt og ósiðlegt að nýta lífeyrissparnaðinn til almennra lækkunnar skulda.
Það er rangt að ASÍ hafi brugðið fæti fyrir almenna lækkun skulda, sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, við upphaf ársfundar sambandsins i morgun.

„Ég vil leyfa mér að ítreka það enn einu sinni, að þó okkar barátta hafi fyrst og fremst snúist um að hjálpa þeim sem lentu í mestum vanda í efnahagshruninu, þeirra sem eru að missa heimili sín, er það einfaldlega rangt að við höfum brugðið fæti fyrir almenna lækkun skulda allra óháð því hvort þeir þurfi á því að halda eða ekki," sagði Gylfi. Hins vegar þyrftu þeir sem hafi sett slíkar tillögur á oddinn að bera ábyrgð á því að finna haldbærar, lögmætar og siðlegar leiðir til að fjármagna slíka aðgerð.

„Hitt er rétt að ASÍ hefur algerlega hafnað því að almennt launafólk og elli- og örorkulífeyrisþegar úr okkar röðum verði látið bera verulegan hluta þessa kostnaðar með því að taka lífeyrissparnað þess ófrjálsri hendi. Slíkt er ekki bara ólögmætt heldur einnig og ekki síður algerlega siðlaust og ég get alveg fullvissað ykkur um það, að þetta verður ekki gert á minni vakt!," segir Gylfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×