Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Vantar algjörlega stöðugleikann

Ari Erlingsson skrifar

Gunnlaugur Jónsson var rétt eins og kollegi sinn hjá Fram ánægður með annan hálfleikinn af tveimur. Þó gekk Gunnlaugur súrari af velli enda tap niðurstaðan hjá hans mönnum.

„Þetta var frábær fyrri hálfleikur og margar glæsilegar sóknir sem við sköpuðum. Við áttum auðvitað að nýta okkur yfirburðina og ná stærra forskoti inn í hálfleikinn. Það var vitað mál að Framarar myndu taka sig saman í andlitinu þar sem þeir voru arfaslakir fyrstu 45 mínúturnar. Við ætluðum að mæta því en þeir hreinlega völtuðu yfir okkur í byrjun seinni hálfleiks og við fundum engin svör. Eins og við vorum þéttir í fyrri hálfleik þá gliðnaði þetta allt í sundur hjá okkur. Menn voru út úr stöðum og menn einfaldlega höfu ekki drifkraftinn til þess að koma okkur aftur inn í leikinn.

Þetta tap ásamt Keflavíkurtapinu í síðasta leik lýsir kannski tímabilinu í hnotskurn hjá okkur. Góður hálfleikur á móti á lélegum hálfleik. Stöðugleikann vantar algjörlega. Það þarf bara að vinna í því vandamáli fyrir næsta tímabil. Við ætluðum að enda tímabilið með sæmd og ná þessu 5 sæti en því miður náðum við okkur ekki á strik í dag. Við ætlum okkur hinsvegar að koma okkur upp á tærnar fyrir næsta leik gegn Haukum. Það er klárt mál.

Sumarið hefur verið lærdómsríkt og það hefur gengið á ýmsu. Þetta er lið sem hægt er að byggja á til frambúðar og með örlítilli styrkingu er hægt að gera þetta að mjög góðu liði.“

Aðspurður hvort hann sé eitthvað byrjaður að ræða við stjórnina um áframhaldið hafði Gunnlaugur þetta að segja.“ Ég er aðeins byrjaður að ræða við þá og þetta ætti nú allt saman að skýrast fljótlega.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×