Innlent

Skattar ekki hækkaðir um 11 milljarða - heldur 19 milljarða

Forseti Alþýðusambands Íslands segir að frysting persónuafsláttar sé ekkert annað dulin skatthækkun sem bitni verst á lágtekjufólki. Ekki sé verið að hækka skatta um 11 milljarða eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu heldur um 19 millljarða.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að skattahækkanir skili ríkissjóði ellefu milljörðum króna á næsta ári. Í raun má nærri tvöfalda þessa tölu því ekki stendur til að hækka persónuafslátt sem þýðir að skattar á almenning hækka um átta milljarða.

Forseti ASÍ má því segja að hér sé um óbeinir skattahækkanir að ræða.

„Við sömdum um það að persónuafsláttur ætti að hækka um þrjú þúsund krónur um næstu áramót og við sömdum líka um það reyndar í fyrri samningi, að hann ætti að vera verðtryggður. Hvorugt tveggja mun leiða til þess að persónuafsláttur verður 4 þúsund krónum lægri en hann ella hefði orðið að óbreyttum lögum. „Það er skattahækkun það er enginn vafi á því," segir Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ.

Í ályktun sem miðstjórn ASÍ sendi frá sér í gær er fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gagnrýnt harðlega og þá sérstaklega að ekki standi til að hækka bætur öryrkja, eldri borgara og atvinnulausra.

„Það að það er mjög óeðlilegt að það sé gengið í það þriðja árið í röð að þeir sem eru með allra lægstu tekjurnar í samfélaginu eigi enn einu sinni að sitja hjá og taka á sig þessar byrðar. Það verður að finna einhverjar aðrar leiðir í því," segir Gylfi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×