Lífið

Fékk steypustyrktarjárn í augað og heldur tónleika í kvöld

Jón Tryggvi Unnarsson.
Jón Tryggvi Unnarsson.

„Það var eftir að ég lenti í vinnuslysi sem ég ákvað að leggja tónlistina fyrir mig," segir Jón Tryggvi Unnarsson, tónlistarmaður, en hann heldur tónleika í Salnum í Kópavogi í kvöld.

Jón Tryggvi lenti í hrikalegu vinnuslysi árið 2007. Þá var hann að vinna sem kranamaður í Hafnarfirði.

„Það var byggingafleki sem fauk á mig og þeytti mér á steypustyrktarjárn," segir Jón Tryggvi en járnið stakkst inn í augað á þessum eineygða blúsara með þeim afleiðingum að það klofnaði í tvennt.

Í dag er hann blindur á öðru auga. Eftir slysið breyttist allt hjá Jóni Tryggva sem hafði alltaf gengið með þann draum í maganum að gefa út sólóplötu.

„Ég var að velta því fyrir mér hvað ég ætti að gera enda gat ég ekki unnið við það sem ég gerði áður," segir Jón Tryggvi sem lét drauminn rætast - hann tók upp fyrstu plötuna sína sem nefnist Silkimjúk er syndin.

Jón Tryggvi spilar þjóðlagablús en aðspurður hversvegna sú stefna höfði til hans svarar hann einfaldlega: „Það hentar mér bara vel."

Áður en Jón Tryggvi gaf út sína fyrstu plötu hafði hann reynt fyrir sér víðsvegar. Meðal annars lenti hann í öðru sæti í tónlistarkeppni á vegum Get Reykjavík. Þá hefur Jón Tryggvi unnið sem fyrirsæta.

Tónleikarnir með Jóni Tryggva hefjast klukkan hálf átta í kvöld og verða í salnum. Hægt er að nálgast miða á heimasíðunni midi.is. Þá er einnig hægt að kaupa miða við innganginn í kvöld.

Fyrir áhugasama má heyra tóndæmi með eineygða blúsaranum hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.