Innlent

Ósamræmi í yfirlýsingum norrænna ráðamanna

Ósamræmis gætir í yfirlýsingum norrænna ráðamanna um hvort áfram verði staðið við lánafyrirgreiðslur til Íslands. Endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsin á efnahagsáætlun Íslands tefst ef norrænu ríkin fresta afgreiðslu lána.

Norrænu lánin eru tengd endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlunar Íslands. Lánin eiga að greiðast út í fjórum jöfnum greiðslum við hverja endurskoðun og var fyrsti hlutinn greiddur út á síðasta ári.

Norrænu ríkin hafa skilyrt sínar lánafyrirgreiðslur við lyktir Icesave málsins og ef lánin frestast þá frestast ennfremur endurskoðun sjóðsins.

Fjármálaráðherra Noregs, sagði aðeins nokkrum klukkustundum eftir að forseti Íslands synjaði Icesave lögunum staðfestingar að ekki kæmi til greina að afgreiða frekari lán Íslands. Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, sagði hins vegar daginn eftir að Norðmenn ætluðu sér ekki að loka á lánalínur til Íslands.

Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar.Mynd/Anton Brink
Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði hins vegar í viðtali við Reuters fréttastofuna á fimmtudag að ekki kæmi til greina að lána Íslendingum nema Ísland standi við sínar alþjóðlegu skuldbindingar. Í sama streng tók Anders Borg, fjármálaráðherra Svía.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fundaði með fjármálaráðherrum Danmerkur og Noregs fyrr í þessum mánuði eftir að ákvörðun forseta lá fyrir.

Skilyrði norrænu ríkjanna fyrir lánafyrirgreiðslum hefur sett mikinn þrýsting á íslensk stjórnvöld í Icesave málinu. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, líkir þannig Svíum við handrukkara í pistli sem birtist á heimasíðu hans í vikunni sem leið.

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, telur ennfremur víst að afstaða norrænu ríkjanna muni leiða til þess að næstu endurskoðun sjóðsins verða frestað um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×