Innlent

Gunnar: Fullyrðingar Gunnsteins rangar

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Gunnar Birgisson, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, segir að fullyrðingar Gunnsteins Sigurðssonar, núverandi bæjarstjóra, um óróleika, togstreitu og flokkadrætti í röðum sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu séu rangar.

Gunnsteinn ætlar ekki að sækjast eftir endurkjöri og segir að Gunnar og stuðningsmenn hans hafa unnið gegn sér.

„Þessar fullyrðingar eru ekki réttar," segir Gunnar. Hann hafi staðið á hliðarlínunni í bæjarpólitíkinni frá því í sumar. Þá bendir Gunnar á þá staðreynd að það hafi verið hann sem lagði til að Gunnsteinn tæki við af sér sem bæjarstjóri.

„Þegar ég ákvað að víkja að kröfu Framsóknarflokksins í sumar til að halda meirihlutanum saman steig ég niður sem bæjarstjóri en var áfram oddviti flokksins. Síðan þegar lífeyrissjóðsmálið kom upp ákvað ég að víkja á meðan sú rannsókn stæði yfir. Á meðan hef ég ekki starfað í bæjarpólitíkinni," segir Gunnar.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vegna bæjarstjórnarkosninganna í maí fer fram í næsta mánuði og rennur framboðsfrestur út um næstu helgi. „Ég er búinn að gefa það út fyrir löngu að ég ætla að gefa kost á mér til að leiða flokkinn áfram."

Gunnar segist ekki vita hvort að fleiri hafi hug á að sækjast eftir fyrsta sætinu í prófkjörinu.




Tengdar fréttir

Formaður fulltrúaráðsins vísar orðum bæjarstjórans á bug

Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi vísar á bug orðum Gunnsteins Sigurðssonar, bæjarstjóra og oddvita sjálfstæðismanna, um að togstreita og óróleiki sé meðal sjálfstæðismanna í Kópavogi. Ekkert sé fjærri sannleikanum.

Bæjarstjórinn stígur til hliðar vegna óróleika meðal sjálfstæðismanna

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér í prófkjöri sjálfstæðismanna vegna komandi bæjarstjórnarkosninga. Ástæðan er óviðunandi togstreita og óróleiki í röðum sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu sem hefur verið viðvarandi síðan í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×