Innlent

Á þriðja hundrað útskrifast úr HR

Alls verða 235 nemendur brautskráðir frá Háskólanum í Reykjavík í dag. Einn verður útskrifaður með doktorsgráðu, 59 með meistaragráðu, 134 með bakkalárgráðu og 41 með diplómagráðu. Flestir útskriftarnemanna eru úr viðskiptadeild eða 91. Þá munu 56 nemendur útskrifast með próf úr tækni- og verkfræðideild, 33 nemendur útskrifast úr kennslufræði- og lýðheilsudeild, 32 úr lagadeild og 23 frá tölvunarfræðideild.

Kynjahlutföll hinna brautskráðu eru mjög jöfn, 120 konur og 115 karlar. Elsti útskriftarneminn að þessu sinni er 68 ára og útskrifast hann með diplómagráðu í stærðfræði frá kennslufræði- og lýðheilsudeild. Um 70% útskriftarnema sem ekki ætla í áframhaldandi nám eru þegar komnir með vinnu.

Í dag mun dr. Ari Kristinn Jónsson jafnframt taka við embætti rektors af dr. Svöfu Grönfeldt, sem gegnt hefur embættinu í þrjú ár. Ari Kristinn er þriðji rektorinn í sögu skólans, en hann hefur um þriggja ára skeið gegnt stöðu forseta tölvunarfræðideildar HR. Áður hafði Ari starfað hjá NASA, geimferðastofnun Bandaríkjanna, og leitt þar stór rannsóknarverkefni á sviði gervigreindar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×