Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi: Erum ekkert hættir að berjast um titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson.
Eyjamaðurinn Þórarinn Ingi Valdimarsson haltraði um eftir 2-0 sigur ÍBV á Selfossi í kvöld en hann gat verið sáttur við uppskeruna þrátt fyrir meiðslin. Þórarinn meiddist eftir aðeins 20 mínútur og þurfti aðfara útaf eftir hálftíma en hafði engu síður náð því að koma sínum mönnum yfir eftir aðeins sjö mínútna leik.

„Þetta var ekkert spes. Ég næ að skora en svo missteig ég mig. Það fylgir þessu víst að meiðast en það er mjög svekkjandi að þurfa að fara útaf á tuttugustu og eitthvað mínútu," sagði Þórarinn sem reyndi að spila sig í gegnum meiðslin í tíu mínútur en varð síðan að yfirgefa völlinn.

„Auðvitað vill maður alltaf halda áfram og reyna það sem maður getur. Ég gat ekki meira. Það er líka leikur á sunnudaginn og það er mikilvægt að vera með í öllum leikjum sem eftir er því það skiptir máli," sagði Þórarinn.

„Ég hafði fulla trú á því að strákarnir myndu klára þetta án manns, ég er ekki aðalmaðurinn í þessu liði heldur bara einn af liðinu. Maður á alltaf að treysta samherjum sínum og þeir sýndu það og sönnuðu að þeir geta klárað þetta," sagði Þórarinn.

„Þeir lágu aðeins á okkur í byrjun en svo kom þetta mark hjá okkur sem róaði okkur niður og við fórum í kjölfarið að spila boltanum. Nú vorum við að tryggja okkur Evrópusæti sem er mjög gott fyrir okkur en við erum ekkert hættir að berjast um titilinn, það er alveg á hreinu," sagði Þórarinn sem ætlar ekki að láta þessi meiðsli hafa af sér fleiri mínútur.

„Auðvitað verð ég klár í næsta leik. Ég hvíli mig núna og mæti síðan tilbúinn til leiks á sunnudaginn," sagði Þórarinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×