Íslenski boltinn

Stuðningsmenn Vals brjálaðir út í Kristin Jakobsson

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristinn hefur verið fremsti dómari landsins um árabil.
Kristinn hefur verið fremsti dómari landsins um árabil. Mynd/Daníel

Vítið sem Kristinn Jakobsson dæmdi í leik Vals og FH í gær var vafasamt og dómurinn fór ekki vel ofan í stuðningsmenn Vals sem vanda Kristni ekki kveðjurnar á spjallborði Vals.is.

Einhverjir virðast hafa farið yfir strikið í gagrýni sinni á Kristin því vefstjóri hefur þurft að fjarlægja einhver ummæli á spjallsíðunni.

Kristinn hefur lengi verið óvinsæll hjá Valsmönnum sem telja margir að það halli ávallt á þá er Kristinn heldur um flautuna.

Það sem stendur hér að neðan má enn finna á spjallborði Vals.

„Svona í alvörunni talað er það gjörsamlega óskiljanlegt að KR-ingur sé látinn dæma hjá Val. Þetta er eitthvað sem hefur verið talað um í nokkur ár. Hvað myndi Ferguson segja ef dómari frá Man City myndi dæma leik hjá united...?" skrifar Ási Sveinss á spjallborðið.

„Hvernig væri nú að stjórn Vals tæki sig til og pressaði á KSÍ að láta KRistin ALDREI dæma aftur hjá Val? Það er komið nóg af þessum manni! Hann svoleiðis beið eftir tækifærinu til að gera einhvern skandal. Það er ekki nokkur vafi að það er fullur ásetningur af hans hálfu í að gera Val lífið leitt. Maðurinn er löngu búinn að toppa Braga Bergmann í ruglinu," skrifar maður sem kallar sig Max og hann bætir síðan við.

„KRistinn hefur dæmt gegn Val í mörg ár. Við eigum fullan rétt á að vera ósáttir."

„Er nú sammála mönnum hér að ofan. Það er með ólíkindum að honum sé hleypt inn á Hlíðarenda eftir þann skaða sem hann hefur valdið okkur í gegnum tíðina. Hann hikar aldrei við að dæma víti á Val," skrifar einstaklingur sem kýs að kalla sig Trifon.

„Menn verða hins vegar að hrósa KR-ingnum í dómgæslunni. Hann er samkvæmur sjálfum sér og alltaf stöðugur þegar hann dæmir á Hlíðarenda. Hann virðist alltaf geta dæmt víti hér...alltaf stöðugur....spurning hvort það eigi ekki bara að byrja leiki hjá okkur þegar hann dæmir á vítaspyrnu gestaliðsins þá er það bara búið," skrifar jhv.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×