Innlent

Ögmundur og Jón Steinar sammála

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ögmundur Jónasson segir að undirbúningur að stofnun millidómsstóls verði hafinn.
Ögmundur Jónasson segir að undirbúningur að stofnun millidómsstóls verði hafinn.
Dómsmálaráðherra er sammála Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttardómara og Róbert Spanó, deildarforseta lagadeildar Háskóla Íslands, um að setja skuli á fót millidómstól og draga þannig úr álagi á Hæstarétt. Hann bendir á að þau viðhorf sem Jón Steinar hafi reifað virðist vera samdóma álit úr stétt lögmanna og dómara. Það hafi hann fengið staðfest á málþingi sem hann sótti á dögunum.

„Spurningin er þá hvernig við komum þessu í framkvæmd og með hvaða hraði við gerum það. Ég held að þetta sé ekki spurning um hvort heldur hvenær. Ég hef þegar tekið málið upp í dómsmálaráðuneytinu og lýst því yfir að það verði tekið í útrétta hönd lögmannasamfélagsins um samstarf í þessu efni," segir Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra. Málið sé því að komast í þann farveg sem Jón Steinar Gunnlaugsson og aðrir hafi kallað eftir.

Þeir Jón Steinar og Róbert Spanó telja mögulegt að millidómstóll geti tekið til starfa á miðju næsta ári. Ögmundur segist ekki treysta sér til að leggja mat á það. „Hitt er ljóst að það er ekkert sem á að koma í veg fyrir að við setjum málið i farveg," segir Ögmundur.




Tengdar fréttir

Forseti lagadeildar sammála Jóni Steinari

Forseti lagadeildar Háskóla Íslands tekur undir með Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttardómara að tilefni sé til að stofna millidómsstig á Íslandi.

Vill millidómsstig og færri hæstaréttardómara

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari vill að þegar í stað verði hugmynd um millidómstig hrint í framkvæmd. Það dómstig þurfi bæði að fjalla um einkamál og sakamál. Kostnaðurinn við það sé mun minni en margir telji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×