Innlent

Gríðarlegur kostnaður vegna tafa í dómskerfinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helstu aðilar sem tengjast dómstólum á Íslandi skora á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að millidómsstigi verði komið á fót. Mynd/ GVA.
Helstu aðilar sem tengjast dómstólum á Íslandi skora á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að millidómsstigi verði komið á fót. Mynd/ GVA.
Afar brýnt er að uppgjöri þeirra mála sem komið hafa til kasta dómstólanna í kölfar hruns íslenska efnahagskerfisins verði hraðað. Kostnaður við uppgjör vegna hruns íslenska efnahagskerfisins eykst gríðarlega ef mál tefjast fyrir dómstólunum, segir í bréfi sem fulltrúar Dómarafélags Íslands, Lögmannafélags Íslands, Lögfræðingafélags Íslands og Ákærendafélags Íslands sendu dómsmálaráðherra fyrr í október. Segja þeir að eindreginn vilji sé til þess að koma á millidómsstigi sem allra fyrst.

Í bréfinu til dómsmálaráðherra er bent á að dráttarvextir muni ganga verulega á eignir skuldara, á meðan mál bíði dóms, ef til vill mánuðum eða árum saman. Skuldarar og þeir sem standi höllum fæti fari verst út úr slíkum drætti. Þá hafi ríkissjóður beina hagsmuni af því að málum verði hraðað í dómskerfinu enda sé vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna lána sem tengd eru hinum föllnu bönkum um 600 milljónir á mánuði.

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem að hann kallaði eftir því að millidómsstigi yrði komið á fót. Undir þá skoðun tók Róbert Spanó, deildarforseti lagadeildar Háskóla Íslands, í samtali við Vísi í dag.






Tengdar fréttir

Forseti lagadeildar sammála Jóni Steinari

Forseti lagadeildar Háskóla Íslands tekur undir með Jóni Steinari Gunnlaugssyni hæstaréttardómara að tilefni sé til að stofna millidómsstig á Íslandi.

Vill millidómsstig og færri hæstaréttardómara

Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómari vill að þegar í stað verði hugmynd um millidómstig hrint í framkvæmd. Það dómstig þurfi bæði að fjalla um einkamál og sakamál. Kostnaðurinn við það sé mun minni en margir telji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×