Innlent

Leigubílstjórar berjast fyrir síðustu mannlegu bensínstöðinni

Valur Grettisson skrifar
Bensínstöðin sem á að loka.
Bensínstöðin sem á að loka.

„Það sem ég heyrði var að þeir voru kallaðir á fund fyrir örfáum dögum síðan og tilkynnt að það ætti að loka stöðinni," segir leigubílstjórinn Þórhallur Óskarsson, sem hefur hafið undirskriftarsöfnun til þess að koma í veg fyrir að bensínstöð Skeljungs í SKógarhlíðinni, fyrir ofan slökkviliðstöðina, verði lokað.

Þegar hafa hundruð manns skrifað nöfn sín á mótmælaskjalið sem stendur til að afhenda stjórnendum Skeljungs á föstudaginn.

Þórhallur starfar á BSR sem hefur aðstöðu rétt hjá bensínstöðinni, sem hann vill meina að sé ein af síðustu mannlegu bensínstöðunum sem hægt er að finna á höfuðborgarsvæðinu.

„Þetta er svona lítil félagsmiðstöð auk þess sem starfsmennirnir þarna, Loftur og Guðmundur, hafa starfað í áratugi á stöðinni," segir Þórhallur sem áréttar að bensínstöðin hafi ekki eingöngu tilfinningalegt gildi fyrir leigubílstjórana og fleiri, heldur sé hægt að nálgast talsvert sérstækari þekkingu á stöðinni heldur en finna má á mörgum öðrum bensínstöðvum.

„Þetta er mannleg bensínstöð en ekki vélræn pulsusala eins og flestar bensínstöðvar eru orðnar í dag," segir Þórhallur sem þykir hart ef það á að loka stöðinni með þeim afleiðingum að viðskiptavinirnir þurfi að sækja sína þjónustu í litlu verslunarmiðstöðvarnar eins og hann vill meina að nútímabensínstöðvar séu orðnar.

„Og þó ég þori nú ekki að fullyrða um það þá heyrði ég samt að þetta væri fyrsta steinsteypta bensínstöðin hér á landi," segir Þórhallur sem hefur einnig heyrt að húsnæðið sjálft sé friðað án þess að hafa fengið það staðfest.

Sjálfur hefur Þórhallur starfað í tæp tuttugu ár á BSR og á þeim tíma ávallt sótt sína þjónustu á bensínstöðina í Skógarhlíð. Hann segist hafa séð sama fólkið koma í áraraðir á stöðina til þess að fá sína þjónustu, og bætir við að því sé sennilega að þakka frábærri þjónustu Guðmundar og Lofts.

Þegar hafa þekkt nöfn skrifað nöfn sín á undirskriftarlistann, meðal annars óperusöngvarinn frægi, Kristján Jóhannsson og leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir.

Þórhallur ætlar, eins og fyrr segir, að afhenda stjórnendum Skeljungs undirskriftirnar á föstudaginn, en söfnunin hófst á mánudaginn. Til stendur að loka stöðinni á sunnudaginn að óbreyttu.

„Vonandi hætta þeir við það," segir Þórhallur sem vonast til þess að stjórnendur sjái af sér, það hljóti að vera rými fyrir persónulega bensínstöð, segir Þórhallur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×