Innlent

Fyrningarfrumvarp réttarbót - en vextir hækka

Tryggvi Þór Herbertsson.
Tryggvi Þór Herbertsson.
Vextir á almennum lánamarkaði munu hækka verði frumvarp um fyrningu gjaldþrots samþykkt á Alþingi. Þingmaður framsóknarflokks telur að frumvarpið feli í sér víðtæka réttarbót fyrir skuldara.

Skuldir einstaklingar fyrnast á tveimur árum í stað fjögurra samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Mun erfiðara verður fyrir kröfuhafa að endurnýja og viðhalda kröfum en þó ekki útilokað.

Frumvarpið hefur enn ekki verið kynnt þingflokkum en Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að frumvarpið gefi skuldurum von. „Það hefur verið þannig að það er tekin öll von frá fólki þegar það hefur verið gert gjaldþrota," segir Tryggvi. „En núna sér maður ljósið innan skammst tíma eftir tvö, eftir að maður er gerður gjaldþrota. En það er náttúrulega ljóst að þetta er skerðing á eignarétti kröfuhafa, það er algjörlega ljóst."

Hann bendir á að aftur á móti sé úrræði í frumvarpinu þar sem kröfuhafar geta farið fyrir dómara eftir tvö ár og rofið fyrningafrest. „Hvort að það nægi til þess að sú skerðing á eignarétti sé óveruleg, það skal ég ekki segja til um núna."

Eygló Harðardóttir, þingmaður Framsóknarflokks, fagnar frumvarpinu og segir að núverandi kerfi sé óásættanlegt. „Það hljóta að vera einhver takmörk á þessum eignarétti. Er það þannig að eignaréttur á ekki bara að ná til þeirra eigna eða tekna sem viðkomandi einstaklingur stendur fyrir fyrir þegar hann skrifar undir lántökuna."

Eygló segir að þetta muni hafa jákvæð áhrif á lánamarkaðinn. „Þetta þýðir að lánadrottnar verði gætnari í lánaviðskiptum. Þeir gera sér grein fyrir því að þeir verða að horfa til stöðu viðkomandi einstaklings og líka vera samningsfúsari ef að einstaklingur lendir í tímabundnum erfiðleikum eins og t.d. atvinnuleysi."

Tryggvi Þór tekur undir þetta en telur að vextir á lánamarkaði hækki í kjölfarið. „Ég held að það sé ljóst að lánadrottnar munu íhuga betur í hvað þeir lána og væntanlega myndi áhættuálag hækka í kjölfarið en hversu mikil þessi áhrif eru það skal ég ekki segja til um en það er ljóst að menn munu vanda sig meira en áður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×