Innlent

Davíð áfram dómari við Mannréttindadómstólinn

Davíð Þór Björgvinsson.
Davíð Þór Björgvinsson. Mynd/Stefán Karlsson
Davíð Þór Björgvinsson mun gegna embætti dómara við Mannréttindadómstól Evrópu fyrir hönd Íslands til ársins 2013. Kjörtímabil hans lengist um þrjú ár eftir að Rússar fullgiltu viðauka við Mannréttindasáttmálann fyrr í mánuðinum.

Evrópuráðið hafði áður farið þess á þess á leit við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið að tilnefnd yrðu af Íslands hálfu þrjú dómaraefni, þar sem kjörtímabil íslensks dómara við dómstólinn átti að renna út 31. október 2010, tæki viðaukinn ekki gildi áður en kosning dómara færi fram í apríl 2010.

Ráðuneytið kallaði eftir umsóknum og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum 12. janúar síðastliðinn að tilnefna Davíð Þór, núverandi dómara við dómstólinn, Hjördísi Björk Hákonardóttur hæstaréttardómara og Pál Hreinsson hæstaréttardómara og formann Rannsóknarnefndar Alþingis, sem dómaraefni af Íslands hálfu við Mannréttindadómstól Evrópu. Vegna fullgildingar Rússa á viðaukanum kemur því ekki til kosningar á íslenskum dómara á þessu ári heldur framlengist tími Davíðs Þórs sjálfkrafa um þrjú ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×