Innlent

Fimm mánaða fangelsi fyrir hnífaárás

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Tvítugur karlmaður hefur verið dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir að ráðast á mann með hnífi og veita honum áverka. Árásin var gerð í heimahúsi í Kópavogi í byrjun apríl 2008. Pilturinn sem ráðist var á hlaut skurði í hársverði, á vinstri öxl og sár á hægri síðu.

Mennirnir voru staddir á heimili árásarmannsins þegar árásin var gerð. Mennirnir höfðu lent í orðaskaki og sá sem varð fyrir árásinni neitaði að yfirgefa heimilið. Var til þess litið við ákvörðun refsingarinnar að hinn dæmdi framdi brotið eftir nokkra ertingu frá brotaþola. Einnig var litið til þess að árásarmaðurinn játaði sakargiftir við alla meðferð málsins og lagði sig fram um að upplýsa málið. Var það virt honum til málsbóta. Ennfremur að ákærði var einungis 17 ára þegar brotið var framið.

Hins vegar var litð til þess við ákvörðun refsingar að það að leggja til manns með hníf, væri sérstaklega hættuleg árás enda til þess fallin að geta valdið miklu líkamstjóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×