Íslenski boltinn

Berglind skoraði tvö og Birna hélt hreinu í þriðja sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir. Mynd/Rósa
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er orðin markahæsti leikmaður 19 ára landsliðs kvenna frá upphafi eftir að hún skoraði tvö mörk í 4-0 sigri liðsins á Úkraínu í lokaleik liðsins í undanriðli EM sem fór fram í Búlgaríu.

Berglind skoraði 4 mörk í þremur sigurleikjum Íslands og hefur þar með skorað 16 mörk í 21 leik fyrir 19 ára landslið kvenna. Greta Mjöll Samúelsdóttir átti gamla metið sem var 14 mörk.

Arna Sif Ásgrímsdóttir og Katrín Gylfadóttir skoruðu hin mörk íslenska liðsins í dag en Birna Berg Haraldsdóttir, fyrirliði og markvörður íslenska liðsins, hélt hreinu í öllum þremur leikjum íslenska liðsins í riðlinum. Birna hefur nú haldið hreinu í fimm 19 ára landsleikjum í röð.

Íslensku stelpurnar unnu alla þrjá leikina í riðlinum með markatölunni 8-0 og voru fyrir leikinn búnar að tryggja sig áfram í milliriðilinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×