Innlent

Nýjar leiðir með aukningu vatnsrennslis

jökulsá á breiðamerkursandi Landsvirkjun vinnur nú að því að finna út hvernig bregðast megi við auknu rennsli í jökulám landins með hækkandi hitastigi. mynd/vegagerðin
jökulsá á breiðamerkursandi Landsvirkjun vinnur nú að því að finna út hvernig bregðast megi við auknu rennsli í jökulám landins með hækkandi hitastigi. mynd/vegagerðin
Háskólinn í Reykjavík (HR), Innovit og Landsvirkjun halda hádegisfund í húsnæði HR í dag um nýsköpun í orkugeiranum. Fundurinn er haldinn í tilefni Alþjóðlegu athafnavikunnar.

Frá árinu 2002 hefur Landsvirkjun tekið þátt í hinum ýmsu samnorrænu rannsóknarverkefnum á breytingum vatnsrennslis vegna loftslagsbreytinga.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, heldur stuttan fyrirlestur undir yfirskriftinni: Áhrif loftslagsbreytinga á rennsli og nýtingu virkjana. Á fundinum mun Óli Grétar kynna nánari niðurstöður verkefnisins sem Landsvirkjun hefur staðið að.

„Niðurstöður rannsókna gefa vísbendingu um að hærra hitastig auki rennsli mikið í jökulám. Vatnsforði Landsvirkjunar er að mestu leyti bundinn í jöklum og munu þeir bráðna hraðar en áður var gert ráð fyrir,“ segir Óli. „Vitneskja um aukið rennsli er því mikilvæg vegna reksturs stöðva Landsvirkjunar.“

Margt bendir til þess að miðað við núverandi spár um áframhaldandi hækkun hitastigs á landinu muni afrennsli frá jöklum aukast mikið umfram það sem nú þegar hefur gerst.

Óli segir að með því að taka mið af loftslagsbreytingum hafi verið hægt að spá fyrir um mikla aukningu í vatnsrennsli.

„Ef þessar rennslisspár rætast munu stöðvar Landsvirkjunar einungis geta nýtt hluta aukningar í rennslinu þar sem þær búa ekki yfir nægilegu afli,“ segir Óli. „Landsvirkjun vinnur nú að því að kanna með hvaða móti unnt er að bregðast við þessum breytingum í framleiðslu sinni.“

Dagskrá fundarins í heild má finna á heimasíðu athafnaviku: www.athafnavika.is

-sv



Fleiri fréttir

Sjá meira


×