Íslenski boltinn

Ólafur kom hnéskelinni aftur á réttan stað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis. Mynd/Valli

Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, kom Oddi Inga Guðmundssyni leikmanni liðsins til hjálpar þegar sá síðarnefndi meiddist á hné á æfingu í vikunni.

Fótbolti.net greindi frá því í dag að Oddur Ingi meiddist þegar að hann var að teygja sig í boltann og fóturinn hafi einfaldlega orðið „eftir í grasinu".

Ólafur sagði við Vísi að hnéskelin hjá Oddi Inga hafi farið út á hlið. „Ég þurfti bara að koma henni á réttan stað aftur," sagði Ólafur sem vissi hvernig ætti að bregðast við.

„Maður hefur upplifað ýmislegt í boltanum og þetta var ekki í fyrsta sinn sem ég sá svona lagað gerast. Aðalmálið er að anda með nefinu, hugsa skýrt og bregðast rétt við," sagði Ólafur.

Óvíst er hversu lengi Oddur Ingi verður frá en hann gekk til liðs við Fylki frá Þrótti í sumar.

„Það er ekki alveg komið á hreint þar sem bólgan í hnénu þarf að fá tíma til að jafna sig. Vonandi er þetta lítill skaði en það er þó mögulegt að hann verði frá í 2-3 mánuði. Það fer eftir því hversu illa vefir og liðbönd eru farin - hnéskelin fór helvíti langt út á hlið."

Í gær var greint frá því að annar gamall Þróttari, Rafn Andri Haraldsson, verði frá í sumar eftir að hann sleit krossbönd í hné í leik með Breiðabliki um síðustu helgi.

„Þeir verða líklega saman í vídjóspólunum í sumar," sagði Ólafur í léttum dúr. „En auðvitað vona ég að meiðsli Odds séu ekki jafn alvarleg og hjá Rafni Andra."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×