Íslenski boltinn

Umfjöllun: Fylkismenn í góðri stöðu

Ari Erlingsson skrifar
Fylkir tók á móti Grindvíkingum í 19. umferð Pepsídeildar karla nú síðdegis. Mikið var undir og ljóst var að hart yrði barist enda fallbaráttan allsráðandi hjá báðum liðum.

Það fór svo að lokum að Fylkir stóð uppi sem sigurvegari í leik sem seint fer í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi. Fyrstu 45 mínútur leiksins voru hreint út sagt hrútleiðinlegar og nánast sóun á súrefni fyrir þá sem á horfðu.

Blaðamanni er það til efs að jafn tíðindalítill fyrri hálfleikur hafi verið spilaður hér á landi í sumar. Síðari hálfleikur var sköminni skárri hvað tíðindi varðar og voru það Grindvíkingar sem létu meira á sér bera framan af.

Matthías Friðriksson átti skot sem smaug rétt framhjá stönginni, Gilles Ondo slapp einn inn fyrir vörn Fylkismanna en skaut himinhátt yfir og Óli Baldur Bjarnason átti glæsilegt skot á lofti sem Fjalar í markinu varði með stórkostlegum tilþrifum.

Það voru hinsvegar Fylkismenn sem kláruðu leikinn á nokkrum andartökum þegar skammt lifði leiks. Þegar leikklukkan sýndi 80 mínútur tók Kjartan Ágúst Breiðdal hornspyrnu sem Davíð Ásbjörnsson stangaði í netið, hans fyrsta mark í efstu deild að veruleika.

Fylkismenn í stúkunni voru enn að fagna marki Davíðs þegar boltinn barst til Ingimundar Óskarssonar inn í vítateig Grindvíkinga. Ingimundur sýndi klókindi er hann hristi af sér varnarmann, sólaði Óskar í markinu og lagði knöttinn í netið. Staðan skyndilega orðin 2-0 og Fylkismenn í stúkunni tóku við sér.

Augnabliks einbeitingarleysi Grindvíkinga kostaði þá sigurinn og það sem eftir lifði leiks vörðust Fylkismenn vel og sigur þeirra því aldrei í hættu.

Með sigrinum hífðu Fylkismenn sig upp fyrir Grindavík í 9. sætið, eru komnir með 21 stig á meðan Grindavík situr í 10 sæti með 20 stig.

Fylkir - Grindavík 2-0

1-0 Davíð Ásbjörnsson (80.)

2-0 Ingimundur Níels Óskarsson (81.)

Áhorfendur: 769

Dómari: Kristinn Jakobsson 8

Skot (á mark): 10-10 (7-3)

Varin skot: Fjalar 3 - Óskar 5

Horn: 5-4

Aukaspyrnur fengnar: 8-13

Rangstöður: 2-5

Fylkir (4-5-1):

Fjalar Þorgeirsson 7 - maður leiksins

Ásgeir Örn Arnþórsson 5

Davíð Þór Ásbjörnsson 7

Þórir Hannesson 6

Kjartan Ágúst Breiðdal 6

Ingimundur Níels Óskarsson 6

Andrés Már Jóhannesson 4

(65. Valur Fannar Gíslason -)

Ásgeir Börkur Ásgeirsson 6

Andri Már Hermannsson 7

(82. Kristján Valdimarsson -)

Jóhann Þórhallsson 5

Albert Brynjar Ingason 4

(92. Ólafur Ingi Stígsson -)

Grindavík (4-4-2):

Óskar Pétursson 5

Loic Mbang Ondo 6

Auðun Helgason 6

Ólafur Örn Bjarnason 6

Jósef Kristinn Jósefsson 5

Matthías Örn Friðriksson 7

(85. Ray Anthony Jónsson -)

Guðmundur Andri Bjarnason 5

Jóhann Helgason 5

Óli Baldur Bjarnason 6

(85. Grétar Ólafur Hjartarsson -)

Orri Freyr Hjaltalín 5

Gilles Mbang Ondo 4

Smelltu hér til að opna Boltavaktina og lesa lýsingu leiksins: Fylkir - Grindavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×