Innlent

Flestir vilja bíða niðurstöðu dóms

Á Alþingi Í gær var rædd kæra á hendur mótmælendum. Fréttablaðið/GVA
Á Alþingi Í gær var rædd kæra á hendur mótmælendum. Fréttablaðið/GVA

Þingmenn tókust á um það í gær hvort tillaga Björns Vals Gíslasonar væri tæk til þinglegrar meðferðar. Hún kveður á um að skrifstofustjóra Alþingis verði falið að fara þess á leit við ríkissaksóknara að hann dragi til baka ákæru á hendur níu mótmælendum sem sakaðir eru um að hafa ráðist á Alþingi.

Þingmenn VG og Hreyfingarinnar töldu tillöguna þingtæka en aðrir lýstu andstöðu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hóf umræðuna og skoraði á forseta þingsins að vísa málinu frá, sagði fráleitt að frá þinginu bærust efasemdir um að ákæruvaldinu væri treystandi. Árni Þór Sigurðsson, VG, sagði málið varða þingið sjálft og tillagan fyllilega þingtæk.

Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sagði rétt að bíða eftir að dómsvaldið kæmist að réttlátri niðurstöðu í málinu. Í sama streng tók Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingu.

„Hér er um að ræða pólitískt dómsmál,“ sagði Þór Saari, Hreyfingunni. „Það er verið að reyna að ná fram hefndum á mótmælendum.“

Ásta R. Jóhannesdóttir þingforseti bar til baka að hún hefði lýst málið tækt til þinglegrar meðferðar. Engin skoðun á því hefði farið fram. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×