Enski boltinn

Wenger: Sol Campbell ræður alveg við Wayne Rooney

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sol Campbell og Wayne Rooney.
Sol Campbell og Wayne Rooney. Mynd/AFP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur ekki miklar áhyggjur af einvígi hins 35 ára gamla Sol Campbell og 19 marka mannsins Wayne Rooney á Emirates-leikvanginum í dag en stórleikur Arsenal og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni hefst klukkan 16.00 í dag.

Það er líklegt að Sol Campbell þurfi að leysa Thomas Vermaelen af í leiknum mikilvæga þar sem Vermaelen meiddist í markalausa jafnteflinu á móti Aston Villa í vikunni.

„Sol er tilbúinn ef hann hefur náð sér eftir leikinn á miðvikudaginn," sagði Arsene Wenger en Campbell kom inn á fyrir Vermaelen á móti Aston Villa. „Ég þarf að meta stöðuna hjá honum en vanalega kemur hann inn þegar Vermaelen getur ekki spilað," segir Wenger.

„Sol hefur mikla reynslu og honum líður vel í stóru leikjunum. Hann stendur sig ef við þurfum á honum að halda og reynslan kemur sér vel í leikjum sem þessum. Sol ræður alveg við Rooney. Hann hefur unnið vel og lagt mikið á sig og hann er að komast í gott form," segir Wenger,

„Við þurfum samt fyrst og fremst að einbeita okkur að okkar leik. Ég legg aldrei áherslu á að stoppa einn leikmann andstæðinganna heldur legg ég áherslu á frammistöðu liðsins sem einnar heildar," sagði Wenger og bætti við:

„Ég veit það að ef við spilum vel þá getum við unnið Manchester United því við getum unnið alla. Sama hvað gerist í þessum leik þá verðum við áfram í möguleika á að vinna titilinn en sigur í þessum leik setur okkur í mjög góða stöðu," segir Arsene Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×