Íslenski boltinn

9 tímar í fyrsta leik: FH byrjar mótið á útivelli sjöunda árið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Sævarsson í leik á móti Val á Vodafone-vellinum í fyrra.
Guðmundur Sævarsson í leik á móti Val á Vodafone-vellinum í fyrra. Mynd/Daníel
Valur og FH leika í kvöld opnunarleikinn í Pepsi-deild karla þegar Íslandsmeistarar síðustu sex tímabila mætast á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

FH-ingar þekkja það orðið vel að byrja Íslandsmótið á útivelli en þetta er sjöunda árið í röð þar sem þeir fá ekki heimaleik í 1. umferð.

FH-ingar fengu síðast heimaleik í 1. umferð sumarið 2003 þegar þeir tóku á móti Skagamönnum í jafnteflisleik.

Það sem meira er að FH-ingar eru að byrja á mótið á tveimur útileikjum í fimmta sinn á síðustu sjö árum. Næsti leikur FH er einnig á Vodafone-vellinum en þeir mæta þá nágrönnum sínum úr Haukum sem spila sína heimaleiki á Hlíðarenda.

Það hefur ekki háð FH-liðinu mikið að byrja á útivelli því liðið hefur unnið titilinn fimm sinnum á þessum sex árum. FH tapaði opnunarleiknum í Keflavík í fyrra en hafa annars unnið í 1. umferðinni síðustu sex árin.

Hvar hefur fyrsti leikur FH farið fram undanfarin ár:

2009 á Keflavík (0-1 tap fyrir Keflavík)

2008 á Kópavogsvelli (4-0 sigur á HK)

2007 á Akranesvelli (3-2 sigur á ÍA)

2006 á KR-velli (3-0 sigur á KR)

2005 í Keflavík (3-0 sigur á Keflavík)

2004 á KR-velli (2-1 sigur á KR)

2003 í Kaplakrika (1-1 jafntefli við ÍA)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×