Innlent

Flutningabíllinn tættist í sundur

Það þykir með ólíkindum að vöruflutningabílstjóri skuli hafa sloppið lifandi eftir að bíll hans tættist bókstaflega í sundur þegar hann lenti á kletti við innanvert Ísafjarðardjúp seint í gærkvöldi.

Heimamenn gagnrýna að hann skuli hafa verið fluttur slasaður með sjúkrabíl alla leið til Reykjavíkur í nótt, í stað þessað fljúga með hann.

Bíllinn, sem er dráttarbíll með tengivagni, fór út af veginum og skall þar utan í klett með þeim afleiðingum að framhjólin rifnuðu undan honum og ökumannshúsið þeyttist af honum, með ökumanninn í, og hafnaði í átta metra fjarlægð frá flakinu.

Ökumaðurinn missti meðvitund. Lögreglumenn frá Hólmavík komu fyrir tilviljun að slysinu og kölluðu á sjúkrabíl frá Hólmavík, sem kom á móti lögreglubílnum og tók við ökumanninum.

Eftir skamma viðdvöl á heilsugæslunni á Hólmavík var lagt af stað með hinn slasaða í sjúkarbíl áleiðis til Reykjavíkur, en eftir því sem næst verður komist, var höfð viðkoma á sjúkrahúsinu á Akranesi, áður en ökumaðurinn komst á Slysadeild Landspítalans í nótt.

Í fljóti bragði virðist hann ekki mjög mikið slasaður þrátt fyrir allt, en hann verður á spítalanum til frekari rannsókna í dag. Ekki var hálka á veginum og eru tildrög slyssins ókunn.










Tengdar fréttir

Valt í Ísafjarðardjúpi

Ökumaður á stórum flutningabíl slapp ótrúlega lítið meiddur, að sögn lögreglu, þegar bíll hans fór út af veginum við innanvert Ísafjarðardjúp seint í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×