Lífið

Eddunni frestað fram í febrúar

Björn er ósáttur við ákvörðun Sjónvarpsins um hætta við að sýna frá Eddu-verðlaunahátíðinni.fréttablaðið/vilhelm
Björn er ósáttur við ákvörðun Sjónvarpsins um hætta við að sýna frá Eddu-verðlaunahátíðinni.fréttablaðið/vilhelm

Eddu-verðlaunahátíðinni sem átti að halda í lok janúar hefur verið frestað fram í febrúar. Ástæðan er ákvörðun Sjónvarpsins um að hætta við að sýna beint frá henni vegna niðurskurðar.

„Við erum búin að vera þarna í tíu ár þannig að þetta kom aðeins á óvart, því er ekki að neita,“ segir Björn Brynjúlfur Björnsson, formaður ÍKSA, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, um ákvörðun RÚV. „Við heyrðum það í fjölmiðlum, raunar frá Páli Magnússyni, að RÚV ætlaði ekki að sýna frá henni. Við vorum ekki búnir að heyra af því áður, en við vissum að það yrði einhver niðurskurður í gangi og þarna fengum við svarið.“

Ákvörðun RÚV kemur á sama tíma og sjaldan ef ekki aldrei hefur verið meira af kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni í boði hérlendis. „En það er eitt af því sem mun breytast ef stefna yfirvalda í málefnum kvikmyndasjóða annars vegar og stefna stjórnenda RÚV hins vegar gengur fram eins og horfir. Sá skaði er ekki kominn fram. Það eru tvö til þrjú ár í að við sjáum hann,“ segir Björn. Hann bætir við að Eddu-hátíðin sé ekki dýr fyrir Sjónvarpið og njóti sömuleiðis mikilla vinsælda. Í ljósi þess sé ákvörðunin um niðurskurðinn undarleg. „Þarna koma fram tugir leikarar og skemmtikraftar af ýmsu tagi og Sjónvarpið borgar þessu fólki ekki neitt fyrir að koma fram. Þannig að Sjónvarpið er að fá ansi mikið og áhorfið er geysilega gott á þetta, eða í kringum 50 til 60 prósent.

Í fyrra styttum við prógrammið og gerðum það straumlínulagaðra og áhorfið hækkaði töluvert á milli ára,“ segir hann. „Það er áhugi hjá þjóðinni á efninu en það eru ekki allir eins áhugasamir og þjóðin um íslenska kvikmyndagerð, því miður.“

Á næstu dögum verður tilkynnt nákvæmlega hvenær og hvar Eddan verður haldin, en líklega verður hún í Háskólabíói eins og í fyrra.

-fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.