Innlent

Ein vika er langur tími í pólitíkinni

Nokkrir þingmenn sem studdu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ríkisábyrgð Icesave fyrir viku hafa nú lýst yfir andstöðu við að slík atkvæðagreiðsla fari fram

Tillaga Péturs Blöndal var felld á Alþingi og lögin samþykkt. Ákvörðun forseta um að synja Icesave-lögum staðfestingar byggist engu síður á því að meirihluti þingmanna styddi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Áður en Icesave-lögin voru samþykkt á Alþingi að kvöldi 30. desember var felld breytingartillaga frá Pétri H. Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, um að málinu yrði vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu innan sex vikna.

Þrjátíu þingmenn studdu tillögu Péturs. Það voru allir þingmenn Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Hreyfingarinnar sem studdu tillöguna, ásamt Ásmundi Einari Daðasyni og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, þingmönnum VG.

33 þingmenn voru á móti. Það voru allir þingmenn Samfylkingar, tólf af fjórtán þingmönnum VG og Þráinn Bertelsson, óháður.

Þótt þau hafi greitt atkvæði gegn tillögu Péturs lýstu Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson því yfir að forseti Íslands ætti að neita því að staðfesta lögin.

Þegar forsetinn neitaði staðfestingu vísaði hann til þess að yfirlýsingar á Alþingi og áskoranir til forseta frá einstökum þingmönnum sýndu þann vilja meirihluta alþingismanna að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. peturg@frettabladid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×