Innlent

Fiskútflytjandi segist tapa fimm milljónum á dag vegna flugbanns

Karen Kjartansdóttir skrifar
Fiskútflytjandi í Sandgerði getur ekki flutt fiskinn út og er að stórtapa á því.
Fiskútflytjandi í Sandgerði getur ekki flutt fiskinn út og er að stórtapa á því.

Fiskútflytjandi í Sandgerði segir fyrirtæki sitt tapa fimm milljónum á dag vegna flugbanns í Evrópu. Skortur á ferskvöru hefur víða látið á sér kræla í Evrópu vegna gossins í Eyjafjallajökli.

Matvælainnflytjendur segja að hér á landi muni berjaunnendur ef til vill sjá fram á erfiða tíma.

Eldgosið snertir útflutningsfyrirtæki hér á landi mjög illa. Frá miðvikudegi í síðustu viku hefur fyrirtkækið Ný-fiskur í Sandgerði til dæmis ekkert náð að flytja út af fiski til viðskiptavina sinna í Be-Ne-Lux-löndunum.

Allan fisk hefur þurft að frysta en við það rýrnar verðmæti hans um allt að helming.

Birgir Kristinsson, framkvæmdastjóri Ný-fisks, segir tapið nema um fimm milljónum á dag.

Innflutningsfyrirtæki finna mun síður fyrir áhrifum af flugbanninu.

Kjartan Már Friðsteinsson, framkvæmdastjóri Banana, sem sér um stóran hluta á innflutningi á ávöxtum hinga til lands, segir að vel hafi tekist að koma vörum frá Bandaríkjunum hingað til lands. Þær hafi því komið í stað þeirra sem legið hafa undir skemmdum á flugvöllum í Evrópu.

Það eru helst sælkerar sem taka fersk ber fram yfir annað góðgæti sem gætu fundið fyrir skorti á ferskvöru hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×