Fótbolti

Paul Scholes afþakkaði sæti í enska HM-hópnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes.
Paul Scholes. Mynd/AFP
Manchester United maðurinn Paul Scholes var ekki tilbúinn að svara kalli landsliðsþjálfarans Fabio Capello þegar ítalinn vildi að hann gæfi kost á sér á nýjan leik í enska landsliðið fyrir HM í Suður-Afríku í sumar.

„Við vorum búnir að fylgjast með honum seinni hluta tímabilsins þar sem að hann spilað mjög vel. Við reyndum að sannfæra hann um að koma aftur í landsliðið en hann sagði nei. Hann vildi frekar vera heima hjá fjölskyldunni," sagði Fabio Capello.

Paul Scholes er orðinn 35 ára gamall en hann hefur spilað mjög vel með Manchester United á þessu tímabili. Scholes hefur ekki leikið með landsliðinu síðan að hann lék 66. landsleik sinn á EM 2004.

Neitun Scholes var hluti af ástæðunni fyrir því að Capello ákvað að velja Gareth Barry í hópinn þrátt fyrir að Manchester City miðjumaðurinn sé meiddur á ökkla. Hin ástæðan er að Barry fékk að flýta mati á meiðslunum til 24. maí en það er ljóst að Barry getur ekki tekið þátt í æfingabúðum liðsins í Ölpunum.

Capello leitaði einnig til Liverpool-mannsins Jamie Carragher en ólíkt Scholes þá var hann tilbúinn að gefa kost á sér á nýjan leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×