Enski boltinn

Capello hittir Terry á fundi seinnipartinn í dag

Ómar Þorgeirsson skrifar
John Terry og Fabio Capello.
John Terry og Fabio Capello. Nordic photos/AFP

Landsliðsþjálfarinn Fabio Capello hjá Englandi var mættur á Heathrow-flugvöll í London í gær þar sem þvaga fjölmiðlamanna beið hans.

Ítalinn er mættur til Englands til þess að kveða dóm yfir fyrirliða landsliðsins John Terry en hann hefur verið í brennidepli fjölmiðla undanfarna daga eftir að hafa haldið framhjá eiginkonu sinni með barnsmóður fyrrum liðsfélaga síns hjá Chelsea og enska landsliðinu, Wayne Bridge sem nú leikur með Manchester City.

Talsmaður Terry hefur þegar líst því yfir að leikmaðurinn ætli ekkert að tjá sig um málið fyrr en hann hefur rætt við Capello og að sameiningu muni þeir gefa út yfirlýsingu um hvort Terry haldi áfram sem fyrirliði landsliðsins.

Fjölmiðlamennirnir gengu hart að Capello í gær til þess að reyna að fá viðbrögð frá honum en hann vildi ekkert tjá sig og svaraði öllum spurningum með því að segja „no comment".

Samkvæmt heimildum Sky Sports fréttastofunnar munu Capello og Terry hittast seinnipartinn í dag eftir æfingu varnarmannsins hjá Chelsea.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×